Strikum út, ekki skila auðu!

Það skyldi svo sem engan undra að VG auki fylgi sitt í skoðanakönnunum fyrir næstu kosningar. Þetta er vissulega sá flokkur sem staðið hefur utan ríkissjórna og haldið hefur uppi "öflugri" stjórnarandstöðu á umliðnum árum. Það sem vekur mestu undrun mína er sú staðreynd að Samfylkingin skuli halda sínu fylgi og jafnvel bæta við sig ef marka má skoðanakannanir síðustu daga. Samfylkingin var, eins og allir vita, annar stjórnarflokkanna í ríkisstjórn Geirs Haarde og maður skyldi ætla að þessir flokkar fengju nú að kenna á því með áþekkum hætti. Óneitanlega og sanngjarnt er Sjálfstæðisflokkurinn að súpa seyðið af sínum verkum þrátt fyrir að helstu forsprakkar flokksins til margra ára séu að draga sig í hlé. Nú er búið að kjósa nýja forystu og jafnvel komin upp hugleiðing um EB-væðingu, a.m.k. lýsti nýendurkjörinn varaformaður, fyrir flokksþing, afdráttarlausri afstöðu sinni, í þeim efnum. Samfylkingin teflir hinsvegar að mestu fram sama liðinu sem var í stjórninni með íhaldinu. Af hverju fær hún ekki sömu útreið. Bar Samfylkingin enga ábyrgð? Er íslenska þjóðin virkilega búin að fyrirgefa alla óstjórnina bara af því að formenn flokkanna eru komnir í veikindafrí og keppast við að "axla ábyrgð" til hægri og vinsti og biðja þjóðina afsökunar á misgjörðum sínum við hvert tækifæri sem býðst. Dettur einhverjum í hug að formennirnir hafi einir borið ábyrgð á því hörmungarástandi sem búið er að steypa þjóðinni í? Að sjáfsögðu á að sýna öllum þingmönnum, sem komið hafa að ríkisstjórn síðan bankarnir voru færðir vildarvinum á silfurfati í tvo heimana. Það þarf að koma þessu fólki, sem þjóðin velur til þess að stjórna landinu í skilning um að það er að vinna fyrir okkur. Sá boðskapur virðist ekki komast til skila nema með hörðu. Eftir hrunið þegar mótmælafundir á Austurvelli hófust, við fótstall Jóns Sigurðssonar, fæddist von í hjarta mér. Nú var tækifærið komið til að stokka upp, koma öllu sukkliðinu burt og fá nýtt og ferskt fólk til starfa, fólk sem þurfti ekki að þjóna einhverjum klíkum, fólk sem hafði ferska og heilbrigða sýn á framtíðina. Eitthvað jafn flekklaust og jóð sem sér dagrenninguna í fyrsta skipti. Fólk sem var tilbúið að stofna samtök sem hefði heiðarleika og sanngirni að leiðarljósi og hefði kjark til að leiða okkur út úr þessum ógöngum. Hvað blasir við okkur kjósendum í dag tveimur dögum fyrir kosningar? Okkur stendur til boða að kjósa Sjálfstæðisflokkinn með nýjan formann, Samfylkinguna með sama formann sem stendur á hliðarlínunni, Vinstri græna sem "sátu hjá", Framsókn sem er líka með nýjan formann, Frjálslynda flokkinn sem hafði skoðanir sem heyrðust ekki, Borgaraflokkinn sem er nýtt framboð og Lýðræðishreyfinguna sem er líka nýtt framboð með Ástþór Magnússon i broddi fylkingar. Ekki ætla ég að mæla með neinum þessara framboðslista enda kominn á þá skoðun að kjósa beri einstaklinga til þings en ekki flokka. Nú er tími breytinga runnin upp. Þetta reddast ekki í þetta skiptið. Íslendingar: við þurfum að láta sverfa til stáls. Hvaða vopn hefur íslenska þjóðin til að knýja fram breytingar? Notum atkvæðisréttinn! Mitt tillag til þeirra; sem óákveðnir og tvístígandi eru, sem ætla að skila auðu, sem ætla að gera ógilt eða setja ljóð á atkvæðaseðilinn, sem hafa alltaf kosið sama flokkinn og "ég fer nú ekki að breyta því", er: Kjósið gamla flokkinn en: STRIKIÐ ÚT ÞÁ SEM SÁTU Á SÍÐASTA ALÞINGI ALÞING ER HEIÐVIRÐ STOFNUN OG TIL ALÞINGS ÞARF AÐ VELJA HEIÐVIRT FÓLK
mbl.is Fylgið við VG eykst enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband